Virðing

Ég fór að kaupa mér pizzu um daginn sem er nú svo sem ekki frá sögum færandi. Ég bý rétt hjá pizza stað og ákvað að rölta bara yfir og sækja mér eina sveitta. Jæja þegar ég er svo að ganga til baka með pizzu kassann í hendinni heyri ég að það er kallað á mig af leiksvæðinu þarna hjá. Þar var stúlka svona 8-9 ára og kallaði hún " gemmér pizzu". Ég brosti út annað og fannst þetta bara svoldið sætt. Hún kallaði svona 4-5 sinnum og var svona farin að söngla þetta. Þegar ég var svo alveg að vera kominn að dyrunum að blokkinni breytist sönglið í garg og hún gargar "Gefðu mér pizzu þarna helvítis hálfvitinn þinn"!!!! Ég viðurkenni að mér var dáldið brugðið og í rauninni flýtti mér inn því það gat alveg eins verið að hún væri komin með hnúajárn og butterfly hníf. 

Þegar ég svo kom upp í íbúð fór ég að hugsa...hver ber ábyrgð á svona talsmáta hjá börnum. Ég viðurkenni að þó að ég sé svo gamall sem á grönum má sjá og hef unnið með börnum og unglingum nánast allt mitt líf þá hef ég aldrei heyrt annað eins. En ég er að vísu úr sveitinni...hí hí. En börnin fæðast ekki svona. Þau læra þetta einhvernsstaðar og kannski helst hjá foreldrum eða systkynum...jú og svo náttúrulega í skólunum...já og í sjónvarpinu. Tjah...það eru kannski fullt af stöðum sem beina þeim inn á svona háttalag.

Í gamla daga þegar ég var ungur þá datt manni ekki til hugar að tala svona og hvað þá að hrópa svona til ókunnugs manns. Það hefði verið tekið aldeilis í lurginn á manni ef maður hefði vogað sér það. Ég hugsa líka að ef krakki hefði hrópað svona á tímum Snorra Sturlusonar hefði hún verið höggvin í herðar niður...já eða á galdratímum verið brennd á báli fyrir að vera andsetin eða eitthvað.

En hvers vegna hefur þróunin orðið sú að börn bera síður virðingu fyrir eldra fólki? Er það að því að þau eru ofvernduð? Eða kannski ekki nógu vernduð? Ég skal ekki segja en mér finnst að það þurfi að vinna töluvert með þetta í skólum sem og á heimilum.

Svona í lokin þá hefði nú reyndar verið skondið að ganga til stelpunnar og gefa henni eina slæsu. Pizzan var nefnilega með pepperoni, jalapeno, chilli pipar og svörtum pipar. Ég hefði svo bara rölt inn og séð hana éta allan þann snjó sem hún fyndi í Breiðholtinu fram eftr degi...hí hí. Hún hefði ekki beðið mig um pizzu eftir það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Brynjólfsdóttir

Hvar svo sem börnin læra þetta, þá finnst mér það vera heima sem þau eiga að átta sig á því að maður gerir ekki og segir ekki allt sem gert er og sagt í kringum okkur. Við þurfum að velja og hafna. Þessi stelpa var ung,- kannski hefur enginn sagt henni þetta!?

Ég er svo afskiptasöm að ég hefði snúið mér að henni og bent henni á almenna kurteisi í þessu máli. - Þú slepptir alltof góðu tækifæri til að koma þeim boðskap á framfæri...  

...og þó hún hefði dregið upp hnúajárnið í þetta skiptið, þá hefði hún kannski hugsað málið næst áður en hún gólaði???

Tja maður veit aldrei,- vera bjartsýnn!

Hulda Brynjólfsdóttir, 10.12.2007 kl. 10:36

2 identicon

mig langar í pizzu

Dandý (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband