10.12.2007 | 16:24
Bleikt og blátt
Það er ýmislegt rætt á Íslandi í dag svo ég tala nú ekki um á Alþingi okkar íslendinga. Nú finnst fólki óviðeigandi að klæða stráka í blátt og stelpur í rautt rétt eftir fæðingu. Það á að hafa svo mikil áhrif á kynjamisrétti þegar börnin eru orðin stór. Tjah...ég held að það sé allavegna nokkuð ljóst að nýfæddu börnin fatta ekki þann mun. Það er ekki þannig að barn sem klætt er í rautt/bleikt grenji hærra af því að það veit að það fær lægri laun þegar það verður stórt!!! Nei...þetta var nú reyndar smá útúrsnúningur.
Ég man ekki til að ég hafi verið markvisst klæddur í einhverja "strákaliti" þegar ég var að alast upp. Ég man t.d. eftir rauðri lopapeysu sem ég átti lengi og þótti mjög flott. Einnig átti ég rauða takkaskó og rauð stígvél. Ég held að það hafi ekki skipt neinu máli þar sem ég ólst upp. Við vissum jú að blár var strákalitur og rauður var stelpulitur en strákur var strákur og stelpa var stelpa. Það var ekki liturinn á klæðnaðinum sem sagði til um það.
Ég held líka að þó stelpa hafi verið klædd í blátt frá fæðingu til fullorðins ára að þá fái hún ekki hærri laun í dag heldur en stelpa sem klædd var í rautt. Klæðnaður hvort sem er í uppvexti eða á fullorðins árunum skiptir þar engu máli. Klæðnaðurinn hefur ekki það mikil áhrif á karakter einkenni.
Þegar við erum að tala um jafnrétti erum við þá að tala um að kynin séu alveg eins? Ég held að það sé enginn sem vilji það. En öll viljum við þó jafnrétti...eða flest allavegna. Og vissulega getum við verið sammála um að jafnrétti í dag er miklu meira en fyrir t.d. 20 árum...svo ég tala nú ekki um fyrir 120 árum. Ég held að þróunin sé í rétta átt. Jafnrétti á heimilinu er aukast að ég mér finnst. Þá á ég við að karlmaðurinn tekur yfirleitt virkari þátt í heimilisstörfunum s.s. þvotti, uppvaski og fleiru. Ég er reyndar ekki viss um að konan taki í auknu mæli þátt í þessum svo kölluðu karlmannsstörfum á heimilunum. Þá er ég að tala um viðgerðir og viðhald á húsnæði og þess háttar.
Það sem er aftur á móti skammarlegt hjá okkur í dag er að konur séu að fá lægri laun en karlar fyrir sambærilega vinnu. Það er hneysa sem þarf að vinna verulega í. En ég held að það verði ekki gert með því að skipta sér af því hvernig börn eru klædd þegar þau fæðast eða alast upp.
Athugasemdir
Magnað að lesa þetta. Ótrúlegt hvað þetta er asnalegt allt saman. Ég ætla að eignast strák og hafa hann ALLTAF í BLEIKU OG KJÓLUM og sjá til hvernig hann fer út úr því. múhahahhaa
Dandý (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 09:36
Það er líka umhugsunarefni hvað fólk hefur að gera þarna á þingi (eða ekki að gera) fyrst þetta er mál sem krefst athygli og aðgerða.
Persónulega finnst mér mínum skattpeningum illa varið í laun hjá viðkomandi þingmanni sem lagði þetta fram.
ARRRG.
Og ég tek hjartanlega undir þetta með lágu launin,- þetta er ekki lausn á því...
Hulda Brynjólfsdóttir, 11.12.2007 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.