Ó borg mín borg

Hún er skrítin þessi pólitík. Ég verð að segja að ég næ bara ekki á neinn hátt að skilja sjálfstæðismenn í dag. Hinn fyrrverandi gamli góði Villi hefur sýnt á sér þannig hlið að manni lýst hreinlega ekki á blikuna. Ég er nú ekki sjálfstæðismaður en mér leist samt mjög vel á hann þegar hann tók við sem borgarstjóri hér um árið. Hann virkaði traustur og sanngjarn. En eftir þetta furðulega REI mál breyttist allt hjá honum. Hann fór að skrökva um hitt og þetta og var alltaf í einhverri vörn. Málið um "listann" sem hann mundi ekki eftir að hafa séð var vægast sagt hjákátlegt. En með REI málinu sprakk meirihlutinn hans og hinn svonefndi Tjarnarkvartett tók við. Villi kallinn var þá í minnihluta og svona eftir á hyggja bar ekkert á honum þar. Honum og hans flokki gekk illa að bauna á kvartettinn sem virtist vel skipulagður og traustur. Þar hefði að mínu viti verið vettvangur Villa að öðlast traustið aftur...sem oddviti minnihlutaflokks í borgarstjórn. En nei...hann náði í Ólaf F sem að mínu mati var veikasti hlekkur kvartettsins og bauð honum borgarstjórastól, flugvöll og nokkur hús. Framvinda þess atburðar vakti óhug hjá mér og ég held að það hafi líka gert það hjá flestum borgarbúum. Ekki alveg rétt ákvörðun til þess að vinna traustið aftur. Hafi þetta allt saman ekki fyllt kornið í mælinum þá gerði uppspuni Villa í Kastljós þættinum þar sem hann talaði um borgarlögmann sem svo var ekki borgarlögmaður heldur háttsettur maður í orkuveitunni. Nei fyrir mitt leiti þá vinnur Villi ekki traust mitt aftur með þessum hætti. Ég held að möguleikar hans til þess séu liðnir...þó maður útiloki ekki neitt. Það eru kannski mestu möguleikar til þess ef hann segir af sér...núna.

Latur að blogga

Já ég hef verið heldur latur að blogga undanfarið....og ég ætla að vera latur áframGrin

Öskudagur

Það er líf og fjör í borginni og sjálfsagt víðar í dag. Krakkar í allskonar búningum að syngja og betla nammi. Skemmtilegur siður og gaman að sjá fjölbreytnina. Ég rölti aðeins út í hádeginu og sá margt skondið. Tildæmis var ein svona 10-11 ára stúlka klædd sem smokkur og stóð stórum stöfum aftan á henni " Munið að nota smokkinn"....það vantaði bara að skrifa.."annars eignist þið barn eins og mig"...hí hí hí. Svo var mjög súrt að sjá tvo litla Adolf Hitlera syngja óperu úr Brúðkaupi Fígarós með tilþrifum. Já ekki er öll vitleysan eins.Grin

Hvað er í gangi?

Hvað er að gerast með öll þessi vopnuðu rán undanfarið. Ef ég tel rétt þá er þetta sjötta vopnaða ránið síðan í nóvember!!! Og ef ég man rétt þá hafa allir ræningjarnir náðst!!! Það er nú ekki spennandi að vinna við svona aðstæður...það er hreinlega aldrei að vita hvar næsta rán verður en það eru verslanir, bensínstöðvar og bankar sem eru í mestri hættu. Ég held líka að það sé lukka að ekki hafi orðið meiri slys á fólki við þessi rán en það er örugglega bara tímaspurnsmál hvenær það gerist.


mbl.is Öxin fannst og þýfi endurheimt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hí hí

gisliÓlafurDagur

 

Það liðu nú ekki margir dagar frá myndun nýrrar borgarstjórnar þangað til Sjallarnir réðust að helsta málefni nýs borgarstjóra þ.e.a.s flugvöllinn. Gísli Marteinn gat ekki setið lengur á sér og útvarpaði því yfir landsmenn að hann vildi setja íbúðarhúsnæði sem fyrst yfir flugvöllinn. Dagur greip náttúrulega boltann á lofti og tók undir með honum. Spurningin er...verður þetta kannski boltinn sem fellir nýju stjórnina? Er Ólafur valtari?


Sýning á fimmtudaginn

Jæja þá....þið sem eigið eftir að sjá sýninguna Útsýni eftir Júlíu Hannam!!! Það er sýning annað kvöld klukkan 20:00 og um að gera að panta sér miða á www.hugleikur.is . Þetta er þriðja sýning en alls verða sýndar 8 sýningar. Leikarar í verkinu eru Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Sigurður H Pálsson, Guðrún Eysteinsdóttir og Þráinn Sigvaldason (Ég). Leikstjórar eru þau Rúnar Lund og Silja Björk Huldudóttir. Leikritið er sýnt í Möguleikhúsinu...svona koma nú!!!

Spaugstofan

Ég hef náttúrulega ekki komist hjá því að heyra umræðuna um Spaugstofuna undanfarna daga. Ég reyndar missti af henni á laugardaginn og svo aftur á sunnudaginn en var orðinn dáldið spenntur þegar ég loks náði henni í gærkveldi. Og ég verð nú að segja það að ég skil ekki þessa viðkvæmni í fólki. Mér fannst þeir bara gera þetta vel og ég hef séð þá taka menn miklu verr í gegn en þetta. Mér fannst Ólafur bara loksins verða skemmtilegur í höndum þeirra Spaugstofumanna og í rauninni tóku þeir þá Björn Inga og gamla góða Villa miklu meira í gegn en Ólaf. Og svo er fólk að barma sér yfir því að ekki megi gera grín af veikindum Ólafs!!! Ég held að ef hann þolir ekki svona smá grín þá sé verr komið fyrir honum en menn halda. Í rauninni held ég að hann sé ekkert að fárast yfir þessu. Hann fékk að mínu mati góða auglýsingu þarna og miklu jákvæðari umfjöllun en t.d. gamli góði Villi og Bingi.

Auglýsingin

Já ég vill þakka öllum fyrir hlý orð í minn rass. Það er greinilegt að auglýsingin hefur vakið athygli...og vekur enn. Það eru nú ekki allir sem standa naktir fyrir framan alþjóð á síðasta degi ársins...kannski sem betur ferShocking  En það er bara eins og maður sé orðinn frægur eða eitthvað...fór á flugvöllinn að sækja son minn fyrir helgi og þar kom fullt af fólki til mín og þakkaði mér fyrir auglýsinguna... og maður kallaði til mín út á götu um daginn " Hey...ert þú ekki TM kallinn?" og svo gaf hann mér the thumb up!!! Ókey...það er kannski allt í lagi verða frægur...en kannski ekki fyrir þetta!!! Tjah...eða hvað?LoL

Handbolti

Jæja...þá styttist í að EM í handbolta klárist. Íslendingar hafa nú ekki riðið neitt svakalega feitum hesti í þessari keppniLoL  En þeir voru þó allavega bestir áður en þeir fóru út og ef ég man rétt þá ætluðu þeir sér að vinna þessa keppni. Það voru stór orð látin falla þess eðlis rétt fyrir keppnina. En strax eftir fyrsta leik var ljóst að þeir voru alls ekki nógu góður til að standa í alvöru liðunum í keppninni. Svíar drápu í þeim strax. Ég hef reynt að horfa á þetta og verð að segja að þeir hafa valdið mér ómældum pirringi...ég meina...þeir eru að henda boltanum beint í hendurnar á andstæðingum...það er nú ekki eins og andstæðingarnir þurfi einhverja hjálp við að ganga frá okkar mönnum!!!! En nú hef ég ákveðið að láta þetta ekkert pirra mig. Það er ekkert sem ég get gert til þess að breyta leikstíl þeirra...djö...en eins og einn góður maður sagði: " Þetta fer allt einhvernvegin og aldrei öðruvísi en illaUndecided

Dramadrottningar Íslands

Ég held að ég hafi aldrei séð aðrar eins dramadrottningar og í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarið. Þetta byrjaði allt á því að "gamli góði Villi" stakk Ólaf F í bakið og tók Birni Inga fagnandi. Gamli góði Villi var síðan margstunginn í bakið af sínum flokksfélögum áður en Björn Ingi kom og tróð sveðju í bakið á gamla góða Villa. Síðan eignaðist Björn Ingi fatavin...en á þessum tíma var Björn nýbúinn að eignast hnífasett. Hnífasettinu tróð hann síðan complett í bakið á Guðjóni fatavini sínum sem náði að losa nokkra hnífana snögglega og stakk Björn til baka...í bakið auðvitað. En hnífsstungunum var ekki lokið. Ólafur F var nýbúinn að ná sér eftir hnífsstunguna frá því 2006 og réðist með sama hníf að nýju vinunum sínum...þeim Degi, Svandísi, Birni Inga og Margréti og stakk þau öll í bakið. Að vísu náði hann ekki að stinga Björn Inga því það var risa stór hnífur þar fyrir. Og öllum þessum stungum hefur fylgt harmagrátur og gníst tanna. En eitt getum við verið viss um....hnífstungunum er langt frá því lokið. En hver verður stunginn næst?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband