Færsluflokkur: Bloggar

Verslunaræði

Verslunaræði okkar Íslendinga náði hámarki í morgun. Eins og menn vita er aftaka veður á suður og vesturlandi í dag. 20-30 metrar á sekúndu. Börnum var ráðlagt að mæta ekki í skóla og fólk var beðið um að halda sig innandyra. Björgunasveitir voru í óða önn við að bjarga fjúkandi hlutum s.s. jólatrjám, heitum potti, bilum, þakplötum og fleiru. Maður hefði haldið að svona veður myndi nú eitthvað aðeins hefta verslunaræði fólks...en nei það er ekki svo. Ein af þessum stóru leikfangaverslunum sem upp eru komnar átti að opna klukkan 11:00. Klukkan 10:15 var farið að myndast biðröð fyrir utan verslunina og í stað þess að láta fólkið fjúka var ákveðið að hleypa því inn. Já...við látum ekkert stöðva okkur!!!

Veður

Hvað er málið með þetta veður þarna fyrir sunnanCool Það dynur á vinstri helmingi landsins hver stórlægðin af fætur annari með vindgangi og mígandi rigningu. Elstu menn muna ekki eftir að hafa munað annað eins. Og allt dynur þetta á þeim þarna vinstra megin. Þetta er vafalaust bein afleiðing gróðurhúsa áhrifana þannig að það er kannski bara sanngjarnt að þetta dynji á þeim þar sem bílamengunin er sem mest.

En hér á Egilsstöðum er rjómablíða í dag. Maður sér það að himininn er blár en það hefur maður ekki séð þann tíma sem maður hefur verið í borginni. Já...og svo sá ég tunglið í gær!!!


Jólasveinninn

Í nótt kom Stekkjastaur til byggða sá fyrsti af 13 bræðrum. Sonur minn fékk vitanlega i skóinn enda búinn að vera með afbrigðum stilltur. Hann vaknaði reyndar þyrstur í nótt og bað um vatnsglas en sagði svo að það væri ekki til glas!!! Ég sagði honum að það væri ekki rétt og náði í vatnsglas handa honum. Við sofnuðum síðan værum blundi og þegar við vöknuðum þaut hann til að sjá hvað hann hefði fengið í skóinn. Jú viti menn hann fékk jöla-könnu. Núna erum við handvissir um það að Stekkjastaur hafi verið fyrir utan gluggann þegar við vorum að tala um vatnsglasið. Við ræddum þetta aðeins í morgun og þá fór han allt í einu að hlæja og sagði..."Það var eins gott að við sögðum ekki að okkur vantaði Titanic"!!!

Home sweet home

Jæja þá er maður kominn austur í rólegheitin. Það er yndislegt. Maður finnur strax fyrir því hvað það er allt miklu afslappaðra hér en í borginni. Umferðin er miklu rólegri eins og gefur að skilja og mannlífið er líka rólegra. Ég fór í Kaupfélagið mitt og þar var sko ekki sama stressið og orðið er í verslunum í Reykjavík. Allt einhvern veginn miklu rólegra.

Ég veit ekki alveg hvar borgin okkar endar en mér lýst ekki á hana. Umferðin hefur stóraukist undanfarin ár og sú aukning er mjög sýnileg. Hér fyrir nokkrum árum var svakaleg traffík þegar fólk var að mæta í vinnuna svona rétt fyrir og eftir heilatímann á morgnana. Núna er sú traffík orðin miklu meiri en önnur traffík eins og hin traffíkin var áður. Meira að segja milli 11 og 12 á kvöldin lendir maður í bílatraffík. Bílakaup okkar Íslendinga eru líka engu lík!!!

Svo er það verslunartraffíkin! Kringlan og Smáralindin eru undantekningarlaust fullar af fólki eftir vinnu og jafnvel fyrr og er ég þá að tala um í miðri viku. Helgarnar eru síðan geðveiki...og þá sérstaklega ef verið er að opna nýja verslun. Ég fór t.d.  með fólk í ELKO og Rúmfatalagerinn á sunnudegi fyrir viku  og hólý mólý...Búðirnar voru stútfullar og þar var lágmark 45 minútna bið til að komast á kassann og þá varð fólk pirrað og fór að skammast út í þjónustuna og þess háttar. Samt var fólk á öllum kössum sveitt við að skanna varninga.

Það er eitt sem ég er að spá í...hvaðan koma allir þessir peningar sem fara í gegnum þessar verlsanir...ég meina ég þekki ekki marga sem ekki kvarta yfir því að hafa of lág laun! 


Bleikt og blátt

Það er ýmislegt rætt á Íslandi í dag svo ég tala nú ekki um á Alþingi okkar íslendinga. Nú finnst fólki óviðeigandi að klæða stráka í blátt og stelpur í rautt rétt eftir fæðingu. Það á að hafa svo mikil áhrif á kynjamisrétti þegar börnin eru orðin stór. Tjah...ég held að það sé allavegna nokkuð ljóst að nýfæddu börnin fatta ekki þann mun. Það er ekki þannig að barn sem klætt er í rautt/bleikt grenji hærra af því að það veit að það fær lægri laun þegar það verður stórt!!! Nei...þetta var nú reyndar smá útúrsnúningur.

Ég man ekki til að ég hafi verið markvisst klæddur í einhverja "strákaliti" þegar ég var að alast upp. Ég man t.d. eftir rauðri lopapeysu sem ég átti lengi og þótti mjög flott. Einnig átti ég rauða takkaskó og rauð stígvél. Ég held að það hafi ekki skipt neinu máli þar sem ég ólst upp. Við vissum jú að blár var strákalitur og rauður var stelpulitur en strákur var strákur og stelpa var stelpa. Það var ekki liturinn á klæðnaðinum sem sagði til um það.

Ég held líka að þó stelpa hafi verið klædd í blátt frá fæðingu til fullorðins ára að þá fái hún ekki hærri laun í dag heldur en stelpa sem klædd var í rautt. Klæðnaður hvort sem er í uppvexti eða á fullorðins árunum skiptir þar engu máli. Klæðnaðurinn hefur ekki það mikil áhrif á karakter einkenni.

Þegar við erum að tala um jafnrétti erum við þá að tala um að kynin séu alveg eins? Ég held að það sé enginn sem vilji það. En öll viljum við þó jafnrétti...eða flest allavegna. Og vissulega getum við verið sammála um að jafnrétti í dag er miklu meira en fyrir t.d. 20 árum...svo ég tala nú ekki um fyrir 120 árum. Ég held að þróunin sé í rétta átt. Jafnrétti á heimilinu er aukast að ég mér finnst. Þá á ég við að karlmaðurinn tekur yfirleitt virkari þátt í heimilisstörfunum s.s. þvotti, uppvaski og fleiru. Ég er reyndar ekki viss um að konan taki í auknu mæli þátt í þessum svo kölluðu karlmannsstörfum á heimilunum. Þá er ég að tala um viðgerðir og viðhald á húsnæði og þess háttar.

Það sem er aftur á móti skammarlegt hjá okkur í dag er að konur séu að fá lægri laun en karlar fyrir sambærilega vinnu. Það er hneysa sem þarf að vinna verulega í. En ég held að það verði ekki gert með því að skipta sér af því hvernig börn eru klædd þegar þau fæðast eða alast upp.


Virðing

Ég fór að kaupa mér pizzu um daginn sem er nú svo sem ekki frá sögum færandi. Ég bý rétt hjá pizza stað og ákvað að rölta bara yfir og sækja mér eina sveitta. Jæja þegar ég er svo að ganga til baka með pizzu kassann í hendinni heyri ég að það er kallað á mig af leiksvæðinu þarna hjá. Þar var stúlka svona 8-9 ára og kallaði hún " gemmér pizzu". Ég brosti út annað og fannst þetta bara svoldið sætt. Hún kallaði svona 4-5 sinnum og var svona farin að söngla þetta. Þegar ég var svo alveg að vera kominn að dyrunum að blokkinni breytist sönglið í garg og hún gargar "Gefðu mér pizzu þarna helvítis hálfvitinn þinn"!!!! Ég viðurkenni að mér var dáldið brugðið og í rauninni flýtti mér inn því það gat alveg eins verið að hún væri komin með hnúajárn og butterfly hníf. 

Þegar ég svo kom upp í íbúð fór ég að hugsa...hver ber ábyrgð á svona talsmáta hjá börnum. Ég viðurkenni að þó að ég sé svo gamall sem á grönum má sjá og hef unnið með börnum og unglingum nánast allt mitt líf þá hef ég aldrei heyrt annað eins. En ég er að vísu úr sveitinni...hí hí. En börnin fæðast ekki svona. Þau læra þetta einhvernsstaðar og kannski helst hjá foreldrum eða systkynum...jú og svo náttúrulega í skólunum...já og í sjónvarpinu. Tjah...það eru kannski fullt af stöðum sem beina þeim inn á svona háttalag.

Í gamla daga þegar ég var ungur þá datt manni ekki til hugar að tala svona og hvað þá að hrópa svona til ókunnugs manns. Það hefði verið tekið aldeilis í lurginn á manni ef maður hefði vogað sér það. Ég hugsa líka að ef krakki hefði hrópað svona á tímum Snorra Sturlusonar hefði hún verið höggvin í herðar niður...já eða á galdratímum verið brennd á báli fyrir að vera andsetin eða eitthvað.

En hvers vegna hefur þróunin orðið sú að börn bera síður virðingu fyrir eldra fólki? Er það að því að þau eru ofvernduð? Eða kannski ekki nógu vernduð? Ég skal ekki segja en mér finnst að það þurfi að vinna töluvert með þetta í skólum sem og á heimilum.

Svona í lokin þá hefði nú reyndar verið skondið að ganga til stelpunnar og gefa henni eina slæsu. Pizzan var nefnilega með pepperoni, jalapeno, chilli pipar og svörtum pipar. Ég hefði svo bara rölt inn og séð hana éta allan þann snjó sem hún fyndi í Breiðholtinu fram eftr degi...hí hí. Hún hefði ekki beðið mig um pizzu eftir það. 


Kynþáttahatur

Mér hefur fundist umræðan um innflytjendur hafa verið hálf óhugnaleg undanfarið. Þetta er hreint og beint kynþáttahatur hjá mörgum. Hvort að þetta sé eitthvað sem Jón Magnússon í Frjálslyndaflokknum hafi hrundið af stað veit ég ekki. En hafi það verið þá hefur þjóðin allavegna verið mjög móttækileg fyrir boðskapnum. Maður er að heyra alveg óhuggulega umræðu um það fólk sem er að flytja til landsins. Til að mynda var ég að hlusta á þáttinn Reykjavík síðdegis fyrir nokkru síðan og þar var ungur maður í símanum sem var að tala um menn frá austur-evrópu. Í lok viðtalsins segir hann eitthvað á þessa leið..."já það var leiðinlegt að Hitler hafi ekki tekist ætlunarverk sitt"...og svo skellti hann á. Sem betur fer heyrir maður þetta ekki svona gróft í útvarpinu á hverjum degi en þetta sýnir kannski hvert við stefnum.

 

Svo vil ég líka aðeins koma inn á umræðuna um tungumálaörðuleika innflytjenda. Ég held að við gerum allt of mikið úr þessu. Að mínu mati eru þetta aðeins tímabundin vandræði...þ.e. það fólk sem er að koma hingað með börn og bú eiga erfitt með að læra málið. Börnin aftur á móti fara í skóla og læra málið. Þegar þau síðan koma út á vinnumarkaðinn eftir nokkur ár eru vandræðin yfirstaðin. Við þurfum bara að sýn smá þolinmæði og tillitsemi.

 

Ég get svo ekki stillt mig um að tala um þann fréttaflutning sem verið hefur í Keflavík eftir þann hörmulega atburð sem varð. Voru það allir Pólverjar á Íslandi sem voru við stýrið á bílnum? Var ungi pólski drengurinn, sem nú er útskúfaður af samnemendum sínum, við stýrið? Hvaða endæmis vitleysa er þetta? Við stýrið var maður!!! Og það vitum við jú...að við erum öll menn!!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband