Færsluflokkur: Bloggar

Óveður

Jæja þá er óveðrið gengið yfir. Þetta var ekkert smá skellur. Ég fór í útkall klukkan 14:30 í gær og var kominn heim um klukkan 01:30. Það voru um 50 útköll hérna enda veðrið alveg kolvitlaust. Hlutir voru fjúkandi um hvippinn og hvappinn, rúður sprungu, þakplötur fuku og meira að segja þakið á björgunarsveitarhúsinu losaði aðeins um sig. Það var rafmagnslaust frá klukkan 17:15 en það kom aftur á um klukkan 23:00 þannig að við stjórnuðum aðgerðum með gamla laginu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef bara aldrei séð annað eins veður. 

En sem betur fer var nú ekki mikið um að fólk væri á ferli en þó var einum bjargað á Fagradal en þar hafði bíll hans fokið út af veginum. Náðist bíllinn upp með herkjum í kolvitlausu veðri og sagðist maðurinn þá vera að fara frá Reyðarfirði og ætlaði á Seyðisfjörð. Björgunarmennirnir sögðu honum að það væri ekkert ferðaveður þar enda Fjarðarheiðin töluvert hærri en Fagridalurinn. En viti menn...eftir svona klukkutíma var hringt í björgunarsveitina á Seyðisfirði. Sami bíll og maður var fokinn út af á Fjarðarheiðinni og þurfti því að bjarga manninum aftur! Sumt fólk er bara ekki í lagi.Angry


Fyrirmynd

Margrét er svo sannarlega vel að titlunum komin. Hún hefur skarað fram úr í íþróttinni síðustu ár og hún er kornung enn þá. Ég sá viðtalið við hana í sjónvarpinu áðan og hún kom frábærlega vel út úr því. Þar kom hún inn á fyrirmyndina og að jafnvel 17-18 ára íþróttamenn væru fyrirmyndir fyrir sér yngri iðkendur. Frabær punktur og það mættu svo sannarlega fleiri taka sér þetta til fyrirmyndar. Til hamingju Margrét Lára. Ég hlakka til að sjá til þín í framtíðinni.


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stopp

Ég hef verið að velta fyrir mér ástandinu þarna í mið-austurlöndum. Í gær var framið hræðilegt morð í Pakistan. Maður skaut konu og sprengdi sig og aðra á eftir. Þetta var svo í öllum fréttatímum sjónvarps. En málið er að við erum að fá svona fréttir á hverjum degi og í raun finnst manni þetta ekkert fréttnæmt lengur. Þetta er vissulega hræðilegt en þetta kemur manni ekkert á óvart miðað við ástandið þarna.

Þennan hrylling kemst maður svo ekki hjá að sjá og mjög erfitt er að hlífa börnunum fyrir þessu því fréttirnar eru þéttpakkaðar af myndum frá sprengingum, skotum og öðru frá þessum þjóðum. Í hádegisfréttum á Stöð 2 og svo á sömu stöð klukkan hálf sjö. Svo á RUV klukkan sjö og tíu. Nánast í öllum þessum fréttatímum eru sýndar þessar hræðulegu myndir og sagt frá þeim hrylling sem þarna fer fram. En er það ekki einmitt það sem þessir hryðuverkamenn vilja? Erum við vesturlandaþjóðir ekki hreinlega að gera nákvæmlega það sem hryðjuverkamennirnir vilja?

Á tímabili var það tíska hjá fólki að hlaupa nakið inn á fótboltaleiki og þá yfirleitt með einhvern boðskap í huga. Með því komust þau með boðskapinn í sjónvarpið og fjöldi fólks sá hann. Eftir smá tíma brugðu sjónvarpsstöðvar á það ráð að beina ekki sjónvarpsvélunum að þessu fólki. Eftir það fór þessum fíflagangi að linna.

En er það ekki einmitt málið? Eigum við hinar vestrænu þjóðir ekki hreinlega bara að hætta að fylla fréttatíma okkar af þessari hryðjuverkastarfsemi? Hvað ætli myndi gerast í þessum heimshluta ef við myndum hreinlega hætta að horfa?
 


Það snjóar og snjóar

Þetta eru bara búin að vera hin á ágætustu jól. Ég varð vitni að því á aðfangadagskvöld þegar um 70 pakkar voru opnaðir á hálftíma. Fín fitubrennsla eftir jólamatinnGrin En annars er bara mjög jólalegt hérna núna. Snjóar og snjóar en það er verst að það er svell undir snjónum og er maður búinn að sjá nokkra fljúga á hausinn í morgun...það er bara hressandi. Svo styttist í áramótin en við feðgar vorum alvarlega að spá í að vera í borginni yfir áramótin. Erum reyndar komnir með bakþanka þar sem spáin þar er ekkert spennandi. Okkur fynnst lágmark að sjá flugeldana fara svona nokkurn veginn lóðrétt upp í loftið.


Skemmtilegir jólasveinar

Þá er aðfangadagur loksins kominn og spennan magnast með hverri mínútunni. Ég er staddur á Stöðvarfirði en þar er venjan að fjöldi jólasveina heimsæki börnin á morgnana og færi börnunum gjafir. Það varð engin breyting á því þessi jól og um klukkan tíu í morgun streymdu hingað inn 12 jólasveinar. Eiturhressir og þrælsprækir. Ég ætla að reyna að fara hér með samtal þeirra:

Jólasveinarnir: Góðan daginn öll sömul.

Jólasveinn 1: já við erum reyndar bara tólf.

jólasveinn 2: Því við skildum einn eftir.

Jólasveinn 3: Eða sko hann er sofandi

Jólasveinn 1: Hann var nefnilega að horfa á fótboltaleik í gærkveldi

Jólasveinn 4: Barkalóní á móti...æi hverju?

Jólasveinn 5: Rellumat...eitthvað.

Jólasveinn 6: Við erum með svona gerfidisk

Jólasveinn 1: Já og heyriði....ég lenti í svakalegu um daginn

Jólasveinn 4: Oh...þá kemur sagan...

Jólasveinn 5: Eigum við ekki bara að syngja?

Jólasveinn 1: Ég var að koma til byggða frá Snæfelli á hreindýrinu mínu þegar og var kominn á fleygiferð...mælirinn á hreindýrinu sýndi 211 kílómetra hraða...

Jólasveinn 2: Vitleysingur...þetta var 21,1 kílómetra hraði!

Jólasveinn 1: Ég var búinn að setja hreindýrið í gúmmískó af því að það er miklu betra í hálku...

Jólasveinn 6: Við erum í alvöru með gerfidisk

Jólasveinn 1: Og þegar ég var kominn inn í Hallormsstað hvellsprakk á hægri framfætinum...af því að það var í gúmmí skó.

Jólasveinn 2: Hefði það ekki líka gerst ef þú hefðir sett það í strigaskó?

Jólasveinn 1: Nei...það hvellspringur ekki á strigskóm!!!!

Jólasveinn 3: Sko það vita nú allir að strigaskór hvellspringa ekki.

Jólasveinn 1: Já...hvar var ég...já og með það togaði ég af öllu afli í ABS bremsukerfið á hreindýrinu sem varð til þess að hreindýrið snarbremsaði á öllum fjórum...

Jólasveinn 7: En það var sprungið á einu

Jólasveinn 1: Það sprakk á gúmmískónum. Fóturinn sprakk ekki... og hraðinn var svo mikill þegar ég bremsaði að malbikið flettist af alveg frá Hallormsstað og hálfa leiðina til Egilsstaða!!!

Jólasveinn 6: Við erum með gerfidisk heima hjá okkur.

Jólasveinn 5: Jæja eigum við ekki að syngja?

Jólasveinn 1: Já og svo gerðist það líka einu sinni....

Allir jólasveinarnir (syngja): Jólasveinar einn og átta......

Og svo kveðja þeir.

 

Sannarlega hressir og skemmtilegir kallar þarna á ferðinni. En ég segi bara gleðileg jól og farsælt komandi nýtt ár. 

 


Lokahnykkurinn

Jæja þá er það lokahnykkurinn í Jólaundirbúningnum. Mér telst svo til að ég eigi eftir að kaupa 2 gjafir...vona að ég sé ekki að gleyma neinum. Þegar það er eftir þá er eftir að pakka inn 4 pökkum og þá er allt tilbúið fyrir hátíðarnar. Ég er að spáí að skella mér á Borgarfjörð í fyrramálið. Þar er haldin árleg skötuveisla með pompi og prakti. Mér var sagt að mæta ekki í sparifötunum...hélt kannski að það yrði matarslagur...en ég fékk þær skýringar að lyktin myndi festast í þeim. Er að pæla í að mæta samt bara í svörtum ruslapoka. Þá er ég líka tilbúinn í matarslag ef út í það ferW00t  Annars held ég að kæst skata, tindabykkja, rófur og hnoðmör séu ekkert spennandi afurðir í matarslag!!!

Að finna sér eitthvað að gera

Það er búið að vera gaman að fylgjast með syni mínum og vini hans í dag. Þeir eru búnir að vera síðan um hádegi að vesenast hvað þeir ættu af sér að gera. Þeir byrjuðu að reyna að horfa á teiknimyndir en það var ekkert gaman. Þá fóru þeir í playsation og það var heldur ekkert skemmtilegt þannig að þeir reyndu að fara í bíló...en gáfust upp á því. Þá fóru þeir út og eru búnir að vera að leika sér tveir í "einni krónu" í dágóða stund. Ég hélt að það væri ekki hægt að vera bara tveir í einni krónu en það er greinilega bara gaman. Alla vega skemmta þeir sér konunglegaCool


Trúin og skólinn

Það hefur mikið verið talað um það undanfarið hvort banna ætti prestum þjóðkirkjunnar að koma inn í skólana. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað býr á bakvið þannig hugsunum. Jú vissulega eru í dag fleiri trúfélög sem finnst þá sem þeim sé mismunað. Þegar ég var í grunnskóla þá var okkur kennd kristinfræði og síðan var okkur kennd trúabragðafræði. Prestar komu nokkrum sinnum á ári með hugvekju til okkar og var það þá yfirleitt tengt Jólum og páskum. Þetta hefur sjálfsagt viðgegnist í hundruði ára.

Við megum heldur ekki gleyma því að mikill meirihluti þjóðarinnar aðhyllist þá trú sem prestar þjóðkirkjunnar boða. Ég efast ekki um að ef það yrði kosið um að banna presta þjóðkirkjunnar innan skóla að þá myndi mikill meirihlutu þjóðarinna kjósa með þjóðkirkjunni. Við megum heldur ekki gleyma því góða starfi sem þar hefur verið unnið. Prestar hafa einnig gegnt veigamiklu hlutverki í sáluhjálp og sálgæslu og aðkoma þeirra í því hlutverki hefur verið ómetanleg og ekki síst innan veggja skólans.

Þegar fólk er að tala um að banna presta þjóðkirkjunnar inn í skólum er þá verið að tala um að banna þeim að koma inn í bekkina þegar áfall hefur orðið í viðkomandi samfélagi? Nei...ég viðurkenni það að ég skil ekki alveg þessa umræðu og hvað liggur að baki. Er þetta einhver öfund?


Lög og reglugerðir

Jæja þá er maður kominn austur aftur og en sú sæla. Veðrið er frábært. Logn, léttskýjað og 7 stiga hiti. Þetta er eins og það gerist best í EvrópuCool.

Ég var aðeins að rýna í lög og reglugerð um dvöl ungmenna á veitingastöðum. Ástæða þess að ég var að skoða þetta var sú að á 18 ára balli úti á landi voru foreldrar með 15-16 ára krakka með sér. Foreldrarnir fóru síðan og skildu krakkana eftir og veifuðu síðan lögunum fyrir framan dyraverðina og sögðu bróðursonur konunnar minnar er inni...hann passar krakkana!!!

Ég fór svo og leit á lögin og reglugerðina og tók eftir því að lögin og reglugerðin stangast á.

Lögin eru svona:

II kafli 5. gr. Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 29.mars 2007.

"Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri".

Þarna kemur fram að unglingur má vera á svona stöðum svo framarlega sem hann er með foreldrum, forráðamönnum, ÆTTINGJUM eða maka. Ég stoppa þarna aðeins við ættingja!!! Þýðir þetta þá að t.d. 18 ára strákur getur tekið 16 ára systur sína á 18 ára dansleik? Já eða jafnvel yngra systkyni? Og hvað er ættingi?  Eru ekki allir Íslendingar í raun skyldir. Er sá sem er skyldur manni í 9. ættlið ættingi manns? Mér fynnst þetta allt of opin skilgreining.

Reglugerðin er aftur á móti mun þrengri. Hún er eftirfarandi: 3. kafli 11. gr. Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 29. júní 2007.

"Ungmennum yngri en 18 ára er óheimilt að dvelja á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir kl. 22 á kvöldin. Þó er þeim það heimilt ef þau eru í fylgd með eftirtöldum einstaklingum, eldri en 18 ára:

  1. Foreldrum eða öðrum forráðamönnum, svo sem stjúpforeldrum eða fósturforeldrum.
  2. Móður- og/eða föðurforeldrum. Sama gildir um foreldra stjúpforeldris eða fósturforeldris.
  3. Maka. "

Þarna er miklu skýrara sett upp með hverjum unglingarnir mega vera á t.d. 18 ára skemmtunum. En lögin eru æðri. Reglugerðin er að vísu leiðbeiningar fyrir lögin en þau taka samt ekki yfir lögin. Og þetta nýta foreldrar sér...sem er svo annar kapítuli fyrir sig. Angry


Borg óttans

Jæja þá er ég kominn aftur í borg óttans og hún tekur við manni eins og þegar maður kvaddi hana fyrir um viku síðan....með stormviðvörun!!! Ég heyrði það að vegna slæmrar veðurspár ætluðu margar verslanir að opna 2 tímum fyrr í fyrramáliðGrin Ég flaug sem sagt suður í morgun og kom í rigningarsudda. Flugvélin var örugglega í 45°halla þegar hún lenti og rétt náði að stöðva við brautarendann...já og svo lagði hún einhvernstaðar upp í Kópavogi!!!

Ég skrapp út í gærkveldi til að skoða jólaskreytinguna í glugganum hjá mér og það var ekkert smá hlýtt úti. 12°C og logn...í miðjum desember...um miðnæturbil. Já það er gott að vera á Egilsstöðum. En ég verð sem sagt í borginni í dag en fer aftur austur annað kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband